Auglýsing

Inga Sæland segir femínisma á Íslandi kominn út í öfgar: „Ég hef miklu meiri áhyggjur af stöðu drengja”

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir í viðtali við DV í dag að femínismi á Íslandi hafi færst út í öfgar og að löngu sé búið að gjaldfella hugtakið. Inga lét þessi orð falla í viðtali við Eyjuna á DV þar sem hún lýsti yfir stuðningi við Davíð Snæ Jónsson sem vikið var úr formannsstóli Sambands íslenskra framhaldsskólanema í vikunni.

Inga segir í samtali við Eyjuna að framgangan gagnvart Davíð hafi verið harkaleg og að alltof mikið um þöggun sé í samfélaginu. Hún líti á málið út frá sjónarhorni tjáningarfrelsis.

„Ég þekki ekki reglur sambandsins eða forsöguna til hlítar í málinu, en mér finnst aðdáunarvert hjá þessum unga manni að tjá skoðanir sínar, það á ekki að refsa honum fyrir þær,” segir Inga.

Davíð var vikið úr störfum í kjölfar blaðagreinar sem hann birti þar sem hann talaði um kynjafræði sem skyldufag í framhaldsskólum og líkti henni við „marxísk fræði“. Inga segist persónulega hafa mikinn áhuga á skólamálum en Flokkur fólksins hefur ekki ályktað sérstaklega um kynjafræði í skólum.

Sjá einnig: Örskýring: Formaður SÍF rekinn eftir umdeilda blaðagrein

Hún segist ekki þekkja kynjafræði í skólum nægilega vel til að tjá sig um hana en tjáir sig hinsvegar um hugtakið femínisma.

„Hugtakið femínismi snýr að jafnræði milli kynjanna. Hinsvegar þykir mér að það sé löngu búið að gjaldfella hugtakið femínismi, þar sem línan hefur verið færð í átt að öfgum af háværum minnihlutahópi,” segir hún.

Öll umræða í þessum málaflokki einkennist af upphlaupi og mótmælum og öðrum leiðindum, sem ég tel ekki rétta leið í baráttunni, auk þess sem forgangsröðunin hjá þessum hópi er gagnrýnisverð

Inga tekur ákvörðun Mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar um ókyngreind salerni sem dæmi um að femínismi sé kominn út í öfgar. Hún segir að þar hafi verið tekið femínísk ákvörðun án þess að spá neitt út í lagaheimildir. Hún segir að þarfari mál ættu að vera í forgangi, eins og að koma fjögurra barna móður sem býr í tjaldi í Laugardalnum í skjól.

Þá bætir hún við að staða kvenna hér á landi sé góð og að hún hafi meiri áhyggjur af stöðu drengja í samfélaginu.

„Við höfum tekið heljarstökk fram á við þegar kemur að stöðu kvenna. Staðan hefur gjörbreyst á síðustu 20 árum. Við sjáum að konur eru í meirihluta þegar kemur að háskólamenntun, meðan drengir eru að sitja eftir í skólakerfinu á grunnskólastiginu, hvað varðar lestur og síðar eru þeir að flosna úr námi í meiri mæli. Ég hef því miklu meiri áhyggjur af stöðu drengja. Við konur höfum ekki yfir miklu að kvarta, við stelpurnar getum alveg verið sáttar,“ segir Inga við Eyjuna.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing