Ólöf Nordal innanríkisráðherra vill auka frelsi á leigubílamarkaði. Hún er hrifin af leigubílaþjónustunni Uber. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Sjá einnig: Örskýring um leigubílaþjónustuna Uber
Uber hefur safnað nægilega mörgum undirskriftum til þess að hefja þjónustu sína í Reykjavík. Fyrirtækið á enga bíla og engir bílstjórar starfa þar.
Uber tengir farþega og almenna ökumenn saman í gegnum app. Þar er hægt að panta bíl, fylgjast með staðsetningu hans og ganga frá greiðslu. Nú er nú hægt að skrá sig sem bílstjóra í Reykjavík á vef Uber.
Ólöf segist í Fréttablaðinu ekki vera komin af stað með að skoða Uber-fyrirkomulagið en segir sjálfsagt að gera það.
Ég hef fylgst með Uber-flæðinu í útlöndum og er hrifin af því. Ég er þó ekki komin neitt af stað með að skoða það og veit ekki hvort það verði gert.
Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, sagði í samtali við mbl.is í desember í fyrra að fyrirkomulagið fari gegn gildandi lögum.
„Það gilda hér ákveðin lög um leigubifreiðar og það er ekkert hægt að fjölga þeim ef manni dettur í hug en þá er spurning hvort þetta fari út í ólöglega starfsemi,“ sagði hann.