Starfandi innflytjendur á öðrum ársfjórðungi ársins 2018 voru að jafnaði 37.388 einstaklingar en það er 18,6 prósent af öllum starfandi einstaklingum á Íslandi. Á þessu tímabili voru að jafnaði 200.798 starfandi á Íslandi á aldrinum 16 til 74 ára. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.
Samkvæmt aðferðum Hagstofunnar telst einstaklingur sem fæddur er erlendis og á foreldra og báða afa og báðar ömmur sem einnig eru fædd erlendis innflytjandi. Aðrir teljast hafa einhvern íslenskan bakgrunn.
Flest vinnandi fólk er með skráð lögheimili á Íslandi eða um 97 prósent allra starfandi. Af innflytjendum voru 32.110 með lögheimili á Íslandi eða um 86 prósent en 5.278 höfðu ekki lögheimili á Íslandi eða um fjórtán prósent.
Starfandi karlar voru fleiri en konur en 106.914 karlar voru að jafnaði starfandi sem gera um 53 prósent á móti 93.884 konum eða um 47 prósent.
Niðurstöðurnar ná til allra einstaklinga með atvinnutekjur sem eru gefnar upp til staðgreiðslu. Það eru laun vegna vinnu, fæðingarorlofsgreiðslur og reiknað endurgjald. Fjöldi starfandi er flokkaður eftir kyni, aldri, bakgrunni og staðsetningu lögheimilis. Nánari upplýsingar er að finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.
Í mannfjöldatölum Hagstofunnar frá því fyrr í sumar kemur fram að erlendir ríkisborgarar séu um tólf prósent af íbúum landsins sem telja rúm 353 þúsund manns.