Instagram kynnti í dag möguleika til að sýna fram á að efni sé kostað. Frægt fólk og aðrir sem birta kostað efni á samfélagsmiðlinum geta því tekið af allan vafa um uppruna myndanna með sérstakri merkingu. Aðeins útvalin vörumerki, frægt fólk og fjölmiðlar fá að nota möguleikann í fyrstu áður en möguleikinn verður almennur.
Mynd frá Buzzfeed:
Duldar auglýsingar eru bannaðar á Íslandi. Í lögum um eftir með viðskiptaháttum og markaðssetningu kemur fram að auglýsingar skulu vera þannig gerðar að enginn vafi leiki á að auglýsingar sé að ræða og skýrt aðgreindar frá öðru efni.
Neytendastofa bannaði á dögunum fyrirtækjunum Krónunni og 17 sortum að nota duldar auglýsingar í markaðssetningu. Forsaga málsins var sú að Neytendastofu barst fjöldi ábendinga vegna stöðufærslna einstaklinga á Instagram þar sem fjallað var um ágæti vara og vörumerkja Krónunnar og 17 sorta.
„Fór Neytendastofa því fram á upplýsingar um það hvort einstaklingarnir hafi fengið greitt fyrir umfjallanirnar og hvernig staðið hafi verið að markaðssetningunni,“ segir í frétt á vef Neytendastofu.
Að sögn Krónunnar og 17 sorta annaðist þriðja fyrirtækið milligöngu við einstaklingana við skipulagningu markaðssetningarinnar. Við meðferð málsins kom fram að einstaklingarnir höfðu þegið greiðslur fyrir umfjöllunina og því væri um auglýsingar að ræða.
Færslurnar voru merktar með myllumerkjum með heitum fyrirtækjanna en Neytendastofa taldi merkingarnar ekki nægilegar til þess að neytendur gætu með góðu móti áttað sig á því að um auglýsingar væri að ræða.
Hingað til hefur Neytendastofu þótt nóg að merkja færslur með kassamerkinu #ad en ljóst er að nýjasta útspil Instagram aðgreinir enn frekar keypt efni frá öðru.