Rússar hafa bannað innflutning á ávöxtum, grænmeti, kjöti, fiski og mjólkurvörum frá Evrópusambandslöndum, Bandaríkjunum, Noregi, Kanada og Ástralíu. Bannið er svar við þvingunaraðgerðum sem Rússar hafa verið beittir fyrir hernað í Úkraínu og fyrir að innlima Krímskaga.
Ísland er ekki á bannlista Rússa samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu samkvæmt frétt DV.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í samtali við DV að bannið sé stórmál. „Annars vegar þar sem tækifæri skapast á Rússlandsmarkaði þegar Norðmenn detta þar út. Hins vegar gæti samkeppni á öðrum mörkuðum harðnað mikið þegar Norðmenn þurfa að koma sinni vöru annað.“
Mikið magn af afurðum eru fluttar til Rússlands frá Íslandi. „Þetta er aðallega síld, makríll, kolmunni og loðna. Árið 2012 voru flutt til Rússlands frá Íslandi um 78 þúsund tonn og árið 2013 var það um 101 þúsund tonn,“ segir hann í samtali við DV.