Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í Gleðigöngunni Reykjavík Pride laugardaginn 17. ágúst, fyrir fólk sem hefur ekki frelsi til að elska eða vera það sjálft án þess að líf þess sé í hættu.
Gleðigangan leggur af stað frá Hallgrímskirkju stundvíslega kl. 14:00. Líkt og áður mun ungliðahreyfing Amnesty bæði taka þátt í göngunni sjálfri og standa fyrir undirskriftasöfnun í Hljómskálagarðinum að göngu lokinni.
Í ár safnar Amnesty undirskriftum fyrir mál Zak Kostopoulos, grísks samkynhneigðs aðgerða- og mannréttindasinna, sem lést 21. september 2018 í kjölfar fólskulegrar líkamsárásar.
Amnesty International krefst þess að dómsmálaráðherra Grikklands tryggi að þeir sem bera ábyrgð á dauða Zaks verði dregnir fyrir dóm. Einnig er krafist þess að yfirvöld rannsaki hvort ástæða árásanna hafi verið vegna haturs, mismununar eða annarra fordóma.
„Okkur er það mikil ánægja að fá með okkur til liðs aðalframkvæmdastjóra Amnesty International, Kumi Naidoo, sem tekur þátt í göngunni með okkur á laugardaginn. Kumi Naidoo er reynslumikill aðgerðasinni og hefur lengi starfað í þágu mannréttinda í sínu heimalandi Suður-Afríku auk þess sem hann hefur gegnt starfi aðalframkvæmdastjóra Greenpeace International,“ segir í tilkynningu.