Ísland og Króatía mætast í lokaleik D riðils á HM í knattspyrnu klukkan 18:00 í kvöld. Íslendingar þurfa á sigri að halda til þess að eiga möguleika á því að komast áfram í 16 liða úrslit keppninnar. Víða um landið verður leikurinn sýndur á risaskjá utandyra og veðurspáin bendir til þess að það ætti að viðra ágætlega til knattspyrnuáhorfs.
Það má búast við bjartviðri og hlýindum á norðaustanverðu landinu. Hiti á Egilsstöðum fer upp í allt að 17 stig og á Akureyri er spáð 13 gráðum þegar flautað verður til leiks. Í Reykjavík verður skýjað en þurrt að mestu og víða mun létta til meðan á leiknum stendur.
Hægt verður að horfa á leikinn á HM torgunum á Ingólfstorgi og Hljómskálagarðinum. Í Vesturbæ er risaskjár við Vesturbæjarlaug í boði Brauð&co, Hagavagnsins, Kaffihúss Vesturbæjar og Melabúðarinnar. Á Akureyri hefur verið settur upp risaskjár í Listagilinu þar sem bæjarbúar geta hist og horft á leikinn.
Veðrið á landinu þegar flautað verður til leiks má sjá á myndinni að ofan.