Heildartekjur af símakosningunni í Söngvakeppni Sjónvarpsins nema um 31,6 milljónum króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Um 243 þúsund atkvæði bárust á laugardaginn en þau hafa aldrei verið fleiri. Hvert atkvæði kostaði 129 krónur.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri hjá RÚV, segir í samtali við Morgunblaðið að útlit sé fyrir að hagnaður verði á keppninni í ár. Hann segir að hagnaðurinn verði meðal annars notaður til að standa straum af kostnaði við þátttöku í Eurovision í Kiev í Úkraínu í maí.
Svala Björgvins fer fyrir Íslands hönd með lagið Paper í Eurovision í ár. Svala mætti Daða Frey í úrslitaumferð keppninni í Laugardalshöll á laugardagskvöld.
Símaatkvæði landsmanna og sjö manna alþjóðleg dómnefnd réðu því hvaða tvö lög komust í úrslitaeinvígið. Í úrslitaumferðinni réðust úrslitin eingöngu með símakosningu.
Eurovision fer fram í Kiev í Úkraínu laugardagskvöldið 13. maí. Undanúrslitakvöldin fara fram þriðjudagskvöldið 9. maí og fimmtudagskvöldið 11. maí. 43 þjóðir taka þátt í keppninni.