Auglýsing

Íslendingarnir meðal efstu keppenda á heimsleikum CrossFit

Þær Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir eru meðal efstu keppenda eftir annan dag á heimsleikum CrossFit sem fara nú fram í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum að því er kemur fram á Vísi.

Annie Mist er í þriðja sæti, Katrín Tanja í fjórða og Ragnheiður Sara í sjötta sæti eftir tvo keppnisdaga en keppt var í grein sem kallast Vígvöllurinn, kapphlaupi í formi jafnhendingar og Fibonacci í gær.

Katrín Tanja, sem var hraustasta kona heims árin 2016 og 2017, sigraði í sjöundu grein heimsleikanna og komst með sigrinum upp í fjórða sæti í heildarkeppninni. Sjöunda greinin nefnist Fibonacci og samanstendur af handstöðupressum, réttstöðulyftu með ketilbjöllum og framstigi með lóðum en keppendur höfðu sex mínútur til að ljúka henni.

Katrín Tanja lauk keppni í greininni á þremur mínútum og 31 sekúndu, Annie Mist var í þriðja sæti og Ragnheiður Sara í sjötta sæti í greininni.

Katrín var einnig í þriðja sæti í grein sem kallast Vígvöllurinn eða „The Battleground“ á ensku og áttunda sæti í kapphlaupi í jafnheningum eða „clear and jerk ladder.“

Björgvin Karl Guðmundsson, sem er eini íslenski keppandinn í karlaflokki, náði ekki að ljúka greininni á tímanum. Þrátt fyrir það er hann í 6. sæti í heildarkeppninni.

Annie Mist náði fjórða sæti í sjöttu keppnisgreininni sem fólst í kapphlaupi í formi jafnhendingar eða „clean and jerk ladder“ eins og greinin heitir á ensku. Keppendur áttu að jafnhenda fimm mismunandi þyngdir og útsláttarfyrirkomulag var í þeirri grein. 20 keppendur af 40 komust áfram í undanúrslit þar sem stöng keppenda var þyngd og fimm komust í úrslit þar sem enn var þyngt á stönginni.

Heimsleikarnir halda áfram í dag, á þriðja keppnisdegi af fjórum, en útsending hefst klukkan 13:45 að íslenskum tíma.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing