Íslenska liðið í hjólaskautaati keppir í þremur leikjum i Víkingsheimilinu í dag. Þetta eru fyrstu leikir liðsins þetta árið og hefur íslenska liðið, Ragnarök, fengið til sín tvö lið, Combat Bullies frá Danmörku og North Devon Roller Derby frá Bretlandi.
Hjólaskautaat náði fyrst vinsældum í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar en þróaðist seinna frá sýndarmennsku yfir í þá alvöru íþrótt sem við þekkjum í dag. Íslenska liðið hefur verið starfrækt frá árinu 2011 og þó öllum kynjum sé fagnað í liðið, er stærstur hluti þess konur.
Leikinn spila tvö lið á gamaldags fjórdekkja hjólaskautum. Leikmenn skauta í hring á brautinni og skiptast liðin á að taka stutt „djömm“ eða „jams“ þar sem bæði liðin hafa valið einn leikmann sem safnar stigum með því að skauta hringi í kringum andstæðing sinn.
Hjólaskautaat er kraftmikil og nýjungagjör íþrótt og lofar íslenska liðið hörkuspennandi viðureignum í dag. Íslenska liðið mun hafa tækifæri á að spila móti danska og breska liðinu sem og erlendu liðin fá að spreyta sig á hvoru öðru. Þríhöfðinn, eins og hann er kallaður innan íþróttarinnar, verður því sannkölluð hjólaskautaveisla.
Keppt verður í Víkingsheimilinu og húsið opnar kl.11:00. Fyrsti leikurinn hefst 11:20 en þá mun danska liðið spila á móti því breska.
Hægt er að nálgast miða á Tix.is en nánari upplýsingar um íþróttina og viðureignina má finna á heimasíðu Ragnaraka hér eða á Facebook-síðu þeirra hér.