Tanja Ísfjörð hvetur íslenskar konur sem hafa lent illa í því og jafnvel óttast um líf sitt eftir að hafa neitað karlmanni til að opna sig á Twitter undir myllumerkinu #sagðinei.
Tanja segir í samtali við Nútímann að karlmenn hunsi allt of oft rétt kvenna til að segja nei. „Við erum ekki gerðar til að þóknast karlmönnum eftir þeirra hentisemi, við eigum okkur sjálfar og ráðum okkur sjálfar,“ segir hún.
Hún segist hafa fengið góð viðbrögð við þræðinum. „Fólk er mjög ánægt með þennan þráð. Eins sorglegt og það er þá kom mér ekki á óvart hversu margar konur opnuðu sig,“ segir Tanja.
Þráðurinn fór í loftið í hádeginu í dag og þegar hafa fjölmargar konur sagt sögu sína. Tanja reið sjálf á vaðið og sagði frá manni sem reyndi að nauðga henni eftir að hann aðstoðaði hana við að komast inn á skemmtistað.
Ég byrja: kall hjálpaði mér inn á skemmtistaðinn Austur, óumbeðinn. Sagði mig síðan skulda sér og reyndi að nauðga mér þegar ég sagði nei.
— Tanja Ísfjörð (@tanjaisfjord) September 19, 2017
Meðal þeirra sem hafa sagt sögu sína undir #sagðinei í dag eru Sóley Tómasdóttir fyrrum borgarfulltrúi og María Lilja Þrastardóttir blaðamaður
Strákar skutluðu mér heim en fengu ekki að koma með mér inn. Læstu bílnum og keyrðu af stað upp í Heiðmörk. Ég henti mér út á ferð #sagðinei
— Sóley Tómasdóttir (@soleytomasar) September 19, 2017
.Var kölluð hóra/mella fyrir að hafa ekki viljað kyssa strákinn sem var skotinn í mér eftir að hafa vangað við hann. Var tólf ára #sagðinei
— M. L. Th. Kemp (@marialiljath) September 19, 2017
Ég sagði nei við að hann kæmi heim til mín, ég sagði nei við því sem hann gerði við mig og ég var lamin – þetta var langt kvöld #sagðinei
— Stefanía Hrund (@stefaniahrund) September 19, 2017
Ég sagði nei, hann sagði að hann myndi ekki fara fyrr en hann fengi það sem hann vildi og hélt mér upp við vegg. #sagðinei
— Elisabet (@Elrondius) September 19, 2017
#sagðinei, hún elti mig samt heim og neitaði að fara, hékk fyrir utan húsið fram undir morgun
Ofbeldi á sér líka stað í hinsegin samböndum— Embla (@emblablablabla) September 19, 2017
Hann bauð í heimsókn. Sátum í sófa þegar hann ætlaði að setja hendur inná buxurnar mínar og hljóp á eftir mér þar til ég fór út #sagðinei
— Auður (@audurosp90) September 19, 2017