333 konur hafa skrifað undir yfirlýsingu KÍTÓN, félags kvenna í tónlist, sem byggð var á yfirlýsingu kvenna í sviðslistum og kvikmyndagerð. Með yfirlýsingunni fylgja 25 nafnlausar sögur þar sem konur greina frá kynbundinni mismunun, áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.
„Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í tónlistariðnaðinum, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Þá gerir smæð bransans og takmarkaður fjöldi tækifæra aðstæður erfiðari,“ segir meðal annars í tilkynningu KÍTÓN.
„Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur. Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur. Fyrst og fremst á misréttinu að linna. Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar,“ segir í tilkynningu KÍTÓN.
Ein af þeim sem leggja fram nafnlausa sögu segir frá því þegar reynt var að nauðga henni.
„Ég var eina konan í hópnum og það var þannig að ég for ásamt öðrum meðlim fyrr út, við vildum versla aðeins og gera ferð úr þessu. Við vorum fyrst til að bóka okkur inn á hótelið sem æxlaðist þannig að við lentum saman á herbergi. Ég hafði engar áhyggjur þar sem við vorum vinir og ég treysti honum.
Það var svo fyrstu nóttina á hótelinu þar sem hann kemur nakin upp að rúminu um miðja nótt og vildi “kúra”. Ég þurfti að halda sænginni niðri og ýta honum frá mér. Hann lét sér ekki segjast og endaði ég á að sparka honum frá mér.
Um morguninn fer ég þegjandi og hljóðalaust í sturtu. Læsi að mér og held mínu striki. Allt í einu sé ég að hann hafði pikkað upp lásinn á baðherbergishurðinni og horfir á mig. Hversu lengi hann stóð þarna veit ég ekki.
Ég tjáði öðrum hljómsveitarmeðlimum frá þessu og viðbrögð voru “Æji þú veist hvernig hann er þegar hann er fullur”. Einn gekk svo langt að segja “Hann sér þig bara sem eina af strákunum” og ég spurði hann hvort hann héldi að hann hefði gert þetta við hann hefðu þeir verið saman í herbergi.
Það var ekki fyrr en ég sagði elsta meðlim frá þessu, manni sem er jafn gamall pabba mínum þar sem hann heimtaði að skipta um herbergi við mig og hann tók ekki í mál að ég væri með þessum manni áfram í herbergi.
Ég hef unnið með þessum manni eftir þetta en alltaf liðið illa í návist hans. Ég er nýfarin að læra að skömmin er hans.“