Servio, dótturfyrirtæki Securitas, sérhæfir sig í þjónustu við kvikmynda- og auglýsingafyrirtæki sem koma til Íslands. Þjónustan felst meðal annars í akstri á sérútbúnum glæsikerrum, öryggis- og lífvarsla ásamt ýmsum reddingum.
Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að mottó fyrirtækisins sé að láta gestum sínum líða eins og drottningum og kóngum.
Stjörnurnar hafa streymt til landsins undanfarin misseri. Beyoncé, Jay-Z, Justin Bieber og fleiri hafa látið sjá sig en Nútíminn heyrir einnig reglulega óstaðfestar sögur af stjörnum sem koma til landsins og tekst að láta lítið fyrir sér fara.
Í samtali við Fréttablaðið gefur Hjörtur ekki upp hvort Servio hafi þjónustað þetta fólk. „Þagmælskan er mikilvæg í þessu starfi. Það læra starfsmenn okkar strax, þeir yrða til dæmis ekki á gesti okkar nema á þá sé mælt. Það er ekki þetta venjulega kumpánlega íslenska spjall í boði,“ segir hann.