Íslendingarnir í einstaklingskeppninni á heimsleikunum í Crossfit um helgina náðu mögnuðum árangri. Verðlaunaféð á heimsleikunum hækkar stöðugt og samtals taka Íslendingarnir í einstaklingskeppninni með sér um 19 milljónir króna.
Anníe Mist Þórisdóttir náði besta árangrinum en hún lenti í þriðja sæti. Anníe fær í sinn hlut 70 þúsund dali í verðlaunafé, eða um 7,4 milljónir króna.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir lenti í fjórða sæti og fær hún 45 þúsund dali í verðlaunafé. Það erum 4,8 milljónir íslenskra króna. Katrín Tanja Davíðsdóttir lenti í fimmta sæti og fær því 30 þúsund dali í verðlaunafé, eða um 3,1 milljónir íslenskra króna.
Þuríður Erla Helgadóttir lenti í 18. sæti og fyrir það fær hún sjö þúsund dali, eða um 740 þúsund krónur. Björgvin Karl Guðmundsson lenti í sjötta sæti í einstaklingsflokki karla og fær fyrir það 26 þúsund dali, eða um 2,7 milljónir króna.