Fjórði og síðasti keppnisdagur heimsleika CrossFit fer fram í dag og íslensku keppendurnir voru í ágætri stöðu fyrir keppnisgreinar dagsins. Katrín Tanja Davíðsdóttir var í fjórða sæti fyrir fyrstu keppnisgrein dagsins, Annie Mist Þórisdóttir í því fimmta sæti og Björgvin Karl Guðmundsson var einnig í fimmta sæti. Þau eiga því í ágætis séns á því að komast á verðlaunapall gangi þeim vel í greinum dagsins.
Efstur í karlaflokki fyrir fyrstu keppnisgrein dagsins var Mathew Fraser með 890 stig, Patrick Vellner var í öðru sæti með 752 stig og Lukas Högberg var þriðja sæti með 704 stig. Björgvin Karl var eins og áður kom fram í fimmta sæti með 656 stig.
Efst í kvennaflokki var Tia-Clair Toomey með 928 stig, í öðru sæti Laura Horvath með 814 stig og í þriðja sæti Kara Sunders með 804 stig. Katrín Tanja var með 804 stig og Annie Mist með 718 stig.
Sjá einnig: Ragnheiður Sara hættir keppni: „Stundum eru hlutirnir ósanngjarnir og fara ekki eins og lag var upp með“
Fyrsta keppnisgreinin hófst klukkan 15:20 þegar keppendur kláruðu fimm umferðir af hlaupi, æfingu á hjóli og með sleða. Hinar tvær æfingarnar hefjast klukkan 19 og 20:35 að íslenskum tíma. Ekki liggur fyrir hvaða æfingar það verða en mikil leynd hvílir yfir keppnisgreinum leikanna.
Eftir fyrstu keppnisgreinina er Katrín Tanja enn í fjórða sæti en komin með 852 stig og er aðeins 20 stigum frá þriðja sætinu í heildarkepninni. Annie Mist er í fimmta sæti og Björgvin Karl er í sjötta sæti í karlaflokki.
Eins og Nútíminn fjallaði um fyrr í dag hætti Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppni í gærkvöldi.
Annie Mist greindi frá því á Instagram-síðu sinni í gærkvöldi að hún hafi fengið hjartsláttartruflanir í níundu keppnisgreininni í gær. Eftir að hafa farið vel af stað í greininni og klárað hnébeygjur á öðrum fæti var komið að kassahoppum sem Annie Mist segist hafa hlakka mikið til að takast á við.
„Þá gerðist eitthvað sem ég hef þurft að vinna með síðan ég var unglingur, hjartsláttartruflanir,“ skrifar Annie Mist og bætir við að þær hafi komið í fimmta setti.
„Þetta gerist kannski þrisvar til fjórum sinnum á ári og ég hef ekki viljað fara í aðgerð. Þetta hefur aldrei gerst í keppni áður, en þetta gerðist í dag.“
Hún segir það hafa vakið uppi hjá henni ótta að hafa ekki stjórn á líkamanum og með svo margar hraustar konur sér við hlið í keppninni hafi ekki verið í boði að hvíla sig. Hún segir höggin frá kassahoppunum mögulega hafa valdið hjartsláttartruflununum og að tvö tilfelli í viðbót hafi komið upp áður en hún náði að klára 25. endurtekninguna.
„Stundum fara hlutirnir ekki eins og þú vildir en það eina sem þú getur gert er að stjórna því hvernig þú bregst við,“ skrifar hún að lokum.