Kvikmyndagerðarmaðurinn, fyrirsætan og aktívistinn Ísold Halldórsdóttir hefur vakið athygli í tískuheiminum upp á síðkastið. Ísold sat fyrir hjá sjálfri Kendall Jenner í herferð fyrir tímaritið Love á sínum tíma. Ísold berst fyrir jákvæðri líkamsímynd kvenna og hefur sett af stað herferð undir myllumerkinu #fatgirlsoncam.
Ísold var í viðtali hjá kanadíska miðlinum Vice og talaði þar um að hún vildi gera ímynd orðsins „feit” jákvæðari. Hún býr í Reykjavík ásamt móður sinni og segir að þrátt fyrir að það geti verið einangrað umhverfi þá felist ýmis tækifæri hér á landi.
„Miðað við önnur lönd þá er Ísland mun framsæknara og jafnara. Íslenskar konur hafa alltaf verið sjálfstæðar, sem sumum finnst ógnandi, en eftir hreyfingar eins og #metoo og #freethenipple, hefur Ísland orðið háværara. Þetta hefur gefið konum tækifæri á því að standa upp fyrir hlutum sem þær trúa á, eins og samþykki,” segir Ísold við Vice.
Hún segir að hún taki því ekki sem sjálfgefnum hlut að hafa fengið að vinna fyrir Love tímaritið og Kendall Jenner.
„Ég hef lært mikið síðan þá og í dag líður mér mun betur fyrir framan myndavélina. Ég mun alltaf vera þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri sem var í raun upphafspunkturinn á því sem ég er að gera í dag.”
Sjá einnig: Kendall Jenner frelsaði geirvörtuna í myndatöku
Hún segir að myllumerkið #fatgirlsoncam sé heiðarleg framsetning á því sem hún er og hvernig hún líti út. Henni finnist mikilvægt að nota orðið feit til þess að lýsa sjálfri sér þar sem merking orðsins hafi verið gerð neikvæð.
„Það er hvorki jákvætt né neikvætt. Þetta er hlutur sem svo margir hafa notað gegn mér. Núna sætti ég mig við þetta af því að það er ekkert að því að vera feitur, rétt eins og það er ekkert að því að vera mjór eða í meðalþyngd,” segir Ísold.
Þegar ég var yngri hélt ég að ég þyrfti að léttast til þess að verða falleg. Þessar hugmyndir eru enn til, ekki bara hjá ungum stelpum heldur öllum.
Ísold er dugleg að setja myndir af sér á Instagram síðu sína og notar iðulega myllumerkið #fatgirlsoncam. Hún lýsir sér sem aktívista, listamanni og fyrirsætu á Instagram. Hún segist fyrst og fremst vera að berjast fyrir jafnrétti, allir eigi rétt á sömu tækifærum, óháð kyni, kynþætti eða stærð.