Ísrael gæti þurft að hætta við að halda Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, nái ríkissjónvarpið þar í landi ekki að greiða skuld sína við Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva að því er kemur fram á vef RÚV.
Söngkonan Netta Barzilai sigraði Eurovision í ár fyrir hönd Ísraels með laginu Toy og að öllu óbreyttu á næsta keppni að fara fram í heimalandi sigurvegarans.
Ísraelska ríkissjónvarpið, Kan, skuldar Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, um 12 milljónir evra eða tæplega 1,5 milljarð íslenskra króna en ekki er vitað hvernig skuldin sé tilkomin. Verði skuldin ekki greidd fljótlega gætu áform um að halda söngvakeppnina í Ísrael raskast töluvert.
Í frétt á vef The Times of Israel kemur fram að sjónvarpsstjóri Kan, Gil Omer, hafi sent BenjaminNetanyahu forsætisráðherra Ísrael bréf þar sem hann biðlar til stjórnvalda um aðstoð við að greiða niður skuldina annars þurfi sjónvarpsstöðin að hætta við að halda keppnina. Frestur til að greiða skuldina sé nú þegar útrunninn en þeim hafi verið gefið tækifæri til dagsins í dag, 14. ágúst til þess að borga.
Stjórnvöld harðneita að gefa ríkissjónvarpinu meira fé til að greiða skuldina og segja að fjármagn sem stöðinni sé úthlutað árlega sé meira en nóg til þess að standa undir rekstri og starfsemi hennar, þar með talið söngvakeppninni.
Hvert framhaldið verður er óljóst.
Sigurlag Nettu, Toy