Auglýsing

Ítrekað gleymdist að sinna pabba Hafþórs, var nýkominn úr skurðaðgerð vegna æxlis í ristli

Svo virðist sem ítrekað hafi gleymst að sinna eldri manni, krabbameinssjúklingi á morfínlyfjum með stóma og stór, ógróin skurðsár á kviði, þegar hann dvaldi á Landspítalanum í síðustu viku.

Hafþór Magni Sólmundsson, sonur mannsins, rekur sögu pabba síns í færslu á Facebook. Þar kemur fram að pabbi hans hafi greinst með illkynja æxli í risli í lok síðasta árs. Eftir geislameðferð var ákveðið að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð. mbl.is fjallaði fyrst um málið. 

Rétt áður en pabbi Hafþórs fór inn á skurðstofuna var hann settur í sokka sem ná upp í nára. Þeir eru notaðir sem forvörn í sambandi við blóðflæði, bjúg og hugsanlegan blóðtappa. Hafþór segir að eftir aðgerðina megi alls ekki sofa í slíkum sokkum og hægt og rólega eigi að draga úr notkun þeirra. „Pabbi var í sokkunum frá miðvikudagsmorgni fram á föstudagskvöld. Það hreinlega gleymdist að taka hann úr þeim,“ skrifar Hafþór.

Eftir aðgerðina verður að horfa meltingunni í rétt horf sem allra fyrst. Koma þörmunum af stað og virkja utanáliggjandi hægðapoka, eða stóma. „Pabbi var á fljótandi fæði og þurfti að reyna með besta móti að hreyfa sig. Með öðrum orðum að koma kerfinu í gangi. Á degi tvö gleymdist að gefa pabba morgunmat,“ skrifar Hafþór.

Þá átti pabbi Hafþórs að fá flautu til að blása í strax eftir að hann vaknaði eftir aðgerðina. Flautan er til þess að koma önduninni af stað, í eðlilegt horf og til að fyrirbyggja að vökvi setjist í lungun. „Pabbi fékk ekki þessa flautu, heldur uppgötvaðist þetta þegar hjúkrunarfræðingur minnir hann á að blása í flautuna. Það var á degi tvö en pabbi hafði enga flautu fengið,“ skrifar Hafþór.

Flutningur heim, norður í land á Sjúkrahúsið á Akureyri

Það gekk ekki áfallalaust fyrir pabba Hafþórs að komast heim. „Í fyrstu gerðum við ráð fyrir að pabbi yrði fluttur með sjúkraflugi norður líkt og við vorum upphaflega upplýst um. Fluginu var hins vegar frestað þar sem að læknar treystu honum ekki í flutning vegna veikindanna þar sem hann var mikið verkjaður og veikur,“ skrifar Hafþór.

Loksins fékk maðurinn að fara heim. Hann átti að fara í flug kl. 16 þennan dag en þegar klukkan var orðin 15.50 bólaði ekkert á sjúkraflutningamönnunum sem áttu að flytja hann. „Pabbi gaf sig á tal við starfsmanna og spurði eftir þeim en það gleymdist að kalla þá í flutninginn. Þeir komu um leið og kallað barst,“ skrifar Hafþór. Það er kannski óþarfi að taka það fram en pabbi hans missti af vélinni, hann varð eftir í hjólastólnum á flugvellinum.

Pabbi hans fékk samt ekki að fara með sjúkraflugi, jafnvel þó að hann væri „morfínlyfjaður krabbameinssjúklingur með stóma og stór, ógróin skurðarsár á kviði.“ Samkvæmt reglum átti hann nefnilega ekki rétt á því þar sem fimm dagar voru liðnir frá aðgerðinni, ekki fjórir.

Þar sem pabbi Hafþórs kom svo seint á völlinn í fyrstu tilraun var ákveðið að hann yrði fluttur tímanlega til að ná næsta flugi sem átti að fara kl. 19 og var hann mættur upp á flugvöll kl. 18. „Þegar á völlinn var komið var hann drifinn úr sjúkrabílnum, settur í hjólastól og skilinn eftir. Læknar höfðu áður brýnt fyrir pabba að hann mætti ekkert reyna á sig í tvo mánuði að lokinni aðgerð, hann má ekki einu sinni lyfta upp haldapoka eða ryksuga. Þarna átti pabbi hins vegar að rúlla sér í hjólastólnum og bjarga sér sjálfur,“ skrifar Hafþór.

Með hjálp kunningakonu fjölskyldunnar komst pabbinn í flugvélina en þegar hann lenti á Akureyri beið hann í 40 mínútur eftir sjúkrabíl sem átti að flytja hann upp á sjúkrahús. „Það gleymdist nefnilega að biðja um hann líka,“ skrifar Hafþór. Þegar þangað var komið kom í ljós að pabba Hafþórs fylgdu hvorki læknaskýrslur né pappírar um lyfjagjöf og annað. Það gleymdist líka.

Hafþór segir í lok færslunnar að þarna virðist vera um alvarlegan samskiptavanda að ræða og skortur á að sjúklingum sé fylgt eftir af ábyrgum aðila Landspítalans.

Hér má sjá færsluna í heild sinni

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing