Dagný Dögg Bæringsdóttir, unnusta Ívars Guðmundssonar, greindi frá því á Facebook að Ívar hefði gleymt að taka nærfötin hennar úr þvottavélinni þegar hann fór með hana í Sorpu á dögunum. Ívar var í tímaþröng þegar þvottavélin bilaði og tók ekki eftir því að hún væri full af nærfötum.
„Nærfötin mín bara virðast ekki ætla að hætta að enda með einhverju móti á enduvinnslustöðvum Sorpu um alla borg,“ segir Dagný í stöðuuppfærslunni en á dögunum lenti einn g-strengur hennar í flöskupoka sem hún fór með í endurvinnslu.
Logi og Hulda, í síðdegisþætti K100, heyrðu í Ívari til að forvitnast og hann staðfesti að Dagný færi með rétt mál. Hann fór með þvottavélina í Sorpu rétt fyrir kvöldmat og þegar að hann kom heim spurði Dagný hann um þvottinn. Þá hafi hann áttað sig á mistökunum.
Ívar dó þó ekki ráðalaus heldur fann símanúmer hjá deildarstjóra hjá Sorpu sem reddaði málunum fyrir þau. Hann fór í gáminn og tók hreinu fötin úr vélinni, setti í poka og afhenti Ívari. Alvöru þjónusta.
Logi Bergmann segir í samtalinu við Ívar að þetta dæmi sýni að hann sé of sterkur. „Veistu hver sagan á bak við þetta er Ívar? Þú ert of sterkur, venjulegt fólk fattar þegar vélin er full,“ segir hann.