Bandaríska leikkonan, Jennifer Lawrence, mun fara með hlutverk Agnesar Magnúsdóttur í kvikmyndinni Burial Rites sem fjallar um örlög Agnesar sem hálshöggvin var árið 1830 í síðustu aftökunni sem framkvæmd var á Íslandi. Variety greinir frá þessu.
Fram kemur í Variety að myndin fjalli um tímann frá morði Agnesar á elskhuga sínum allt þar til dauðadómurinn er staðfestur. Lawrence sjálf er einn framleiðenda myndarinnar sem leikstýrt verður af Luca Guadagnino.
Aftakan á Agnesi og Friðriki Sigurðssyni, bóndasyni frá Katadal, í janúar 1830, var sú síðasta á Íslandi. Þau voru dæmd til dauða fyrir að myrða Natan Ketilsson og Pétur Jónsson í mars tveimur árum áður. Ekki liggur fyrir hver mun fara með hlutverk Natans Ketilssonar í myndinni.
Íslensk kvikmynd var gerð eftir sögunni um Agnesi og Friðrik árið 1995 en þar fóru María Ellingsen og Baltasar Kormákur með aðalhlutverkin.