Jenný Kristín Valberg segir í dag sögu sína úr ofbeldissambandi í myndbandi sem er hluti af herferðinni Þekktu rauðu ljósin. Jenný Kristín var 13 ár í ofbeldissambandi. Sjáðu myndbandið hér að neðan.
Jenný segir frá ofbeldi sem hún og börnin hennar urðu fyrir í sambandinu. Hún var sífellt hrædd um börnin sín og þorði ekki að skilja þau eftir með manninum.
„Hann gat sturlast, hann barði í veggi og hellti sér yfir þau. Þau máttu ekki koma með vini sína heim, það mátti ekki vera of hátt stillt sjónvarpið og þau áttu helst að vera inn í herbergi.”
„Stjórnunin var 100 prósent, þegar hann var búinn að sýna hversu megnugur hann var með því að lemja í veggi og brjóta skrifborðsstóla þá þarf hann ekki að lemja þig. Hann er með stjórnina.”
Jenný segir að sambandið hafi enst svona lengi vegna þess að hún hafi ekki hlustað á aðvörunarljósin sem kviknuðu alveg í byrjun sambandsins.
Horfðu á myndbandið
Herferðin Þekktu rauðu ljósin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband.
Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins. Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint. Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.
„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.”
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rauðu ljósanna. Einnig er hægt að kynna sér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.