Jessica Biel hefur loksins birt mynd frá ferðalagi sínu og Justin Timberlake, eiginmanns hennar, frá Íslandi. Svo virðist sem myndin sé tekin í lauginni að Laugafelli á Sprengisandsleið. Þá sést á myndinni að þau komu á þyrlu.
Í texta með myndinni segist Jessica hafa haldið upp á Cinco de Mayo í náttúrulaug, eins og illmenni úr Bond-myndunum: „Skál!“ Aðdáendur Jessicu kunna vel að meta myndina og hafa líkað við hana tæplega 50 þúsund sinnum.
Jessica og Justin komu til landsins í síðustu viku og dvelja samkvæmt heimildum Nútímans í Úthlíð í Biskupstungum. Þau fengu sér að borða hjá Bakarameistaranum í Suðurveri á dögunum og fengu sér aspasstykki, beikonbræðing og moonsnúð og drukku epla Trópí, vatn og espressó með.
Sjá einnig: Vinsæll leynistaður stórstjarna og milljarðamæringa í Biskupstungum
Þetta sagði Magnús Ingi Kjartansson, starfsmaður Bakarameistarans, í samtali við Nútímann en hann afgreiddi hjónin. Fimm mínútum áður en Justin og Jessica gengu inn í bakaríið kom Íslendingur inn og sagði starfsfólkinu að þetta væri ekkert djók, Timberlake ætlaði að koma og borða á staðnum. Magnús Ingi segist telja að þetta hafi verið starfsmaður þeirra. Hann tók síðan á móti hjónunum og afgreiddi þau.
„Ég bauð bara góðan daginn og ætlaði að afgreiða þau. Ég mælti með allskonar hlutum í borðinu,“ segir Magnús Ingi. Justin valdi beikonbræðing, tvo epla Trópí og Jessica aspasstykki og vatnsglas. Bæði fengu þau sér kaffi og bauð Magnús Ingi þeim upp á moonsnúð í eftirmat í boði hússins.