Stórleikkonan Jodie Foster mun leikstýra, framleiða og leika í enskri endurgerð af Kona fer í stríð. Foster mun leika hlutverk Höllu sem Halldóra Geirharðsdóttir lék í upprunalegu útgáfunni. Þetta kemur fram á vef Deadline.
Foster segir að myndin hafi gert hana spenntari en orð geti lýst og að hún sé spennt fyrir því að búa til ameríska útgáfu af þessari áhrifaríku og fallegu sögu.
Kona fer í stríð er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna en myndin fékk kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs hinn 30. október síðastliðinn.
Foster segir að myndin verði tekin upp í ameríska vestrinu en sagði ekkert til um það hvenær tökur myndu hefjast. Þetta verður fimmta myndin sem Foster leikstýrir.
„Ég get ekki beðið eftir því að leika hana. Það er heiður að taka við taumi hins hæfileikaríka leikstjóra Benedikts Erlingssonar,“ segir Foster.
Benedikt Erlingsson er ánægður með Foster í hlutverki „Höllu hennar Halldóru“ og segir að honum finnist engin betur til þess fallin að leika hana.
„Ég get tekið hattinn ofan fyrir öllu því sem hún hefur staðið fyrir. Hún er baráttukona og um leið ikon. Og við í föruneyti Konunnar sem fór í stríð erum blessuð af þessar samfylgd. Og ferðin er ekki á enda runnin,“ skrifar Benedikt í stöðuuppfærslu á Facebook.