Blaðamaðurinn Jóhann Óli Eiðsson fékk á dögunum sendan bleikan strap-on gervilim — kynlífstól sem fólk klæðir sig í áður en það hefst handa við notkun. Það væri gott og blessað ef Jóhann hefði pantað gerviliminn en hann kannast ekki við það. Hann kannast hins vegar við að hafa átt von á sendingu sem innihélt gamlar bækur.
Jóhann tilkynnti fylgjendum sínum á Twitter um sendinguna og vakti tístið talsverða lukku
Í fyrsta skipti sem ég panta á netinu og fæ rangt innihald. Pantaði bækur en fékk bleikan strap on. Ég veit ekki alveg hvað skal gera.
— Jóhann Óli Eiðsson (@jedissson) June 26, 2017
Í samtali við Nútímann segir Jóhann að hann sé sæmilega sjóaður í að panta af netinu. „Það hefur gengið sæmilega hingað til. Stundum fatastærðir sem fitta ekki alveg en allt verið rétt svo sem,“ segir hann ringlaður.
Þetta er sumsé í fyrsta skipti sem ég lendi í því að fá eitthvað sem ég átti ekki von á. Ég átti von á second hand bókum sem ég hafði keypt á einhverju eBay-bríaríi. Fannst þær reyndar vera nokkuð snöggar til landsins.
Jóhann segist ekki vita hvort um klúður sé að ræða hjá sendanda eða hvort einhver sé hreinlega að gera í sér grín. „Það skýrist sennilega á næstu dögum hvort bækurnar rata til mín eður ei,“ segir hann léttur.
„En ég er eiginlega að vona að einhver vinur minn hafi skipulagt þetta og sé núna að hlæja sig máttlausan yfir þessu.“