Stórleikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson mun kynna stigin fyrir Íslands hönd í Eurovision í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.
„Þegar ég var beðinn um þetta sagði ég strax já. Ég geri mér grein fyrir að þarna dugar ekkert hálfkák og best að afgreiða þetta af öryggi og festu ásamt lipurð og sveigjanleika. Svo er þetta tækifæri til að gleðja börnin mín. Þeim mun eflaust þykja þetta töff. Ég vona það allavega,“ segir Jóhannes í tilkynningunni.
Jóhannes tekur við keflinu af Eddu Sif Pálsdóttur sem hefur skorað á hann að klæðast BDSM/hatarabúningi. Annað væri ekki sanngjarnt þar sem að hún kynnti stigin í landsliðsbúningi í fyrra.
Sjá einnig: Edda Sif tilkynnti stigin frá Íslandi í nýju landsliðstreyjunni
Jóhannes segir sjálfur í samtali við mbl.is að hann muni ráðfæra sig við börnin sín. „Ég veit að þau verða ánægð með pabba sinn ef hann er stigakynnir, því þau fylgjast alltaf spennt með keppninni en ég gæti skemmt þetta ef ég fer að mæta þarna í leðurgrímu,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Sjá einnig: Jóhannes Haukur ræðir stóra breikið og Game of Thrones: „Ég bara titraði sko, þetta var geðveikt“
Ég var í landsliðsbúningi í fyrra.
Stigakynnirinn í ár hlýtur þá að vera í BDSM/hatarabúningi. Annað er ekki sanngjarnt!#12stig
— Edda Sif Pálsdóttir (@EddaSifPalsd) May 11, 2019
Hatarar keppa í úrslitum Eurovision á laugardaginnn en þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem að íslenskt atriði kemst í úrslit.