Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson mun leika gegn Vin Diesel í ofurhetjumyndinni Bloodshot. Jóhannes mun leika illmenni í myndinni og berjast gegn fyrrum hermanni sem er gæddur yfirnátturulegum kröftum og er leikinn af Vin Diesel. Frá þessu er greint á vef DV í dag.
Kvikmyndin er byggð á samnefndri teiknimyndasögu og verður ekki hin dæmigerða ofurhetjumynd heldur verður hún stíluð meira á fullorðna áhorfendur, svipað og myndir eins og Deadpool og Logan.
Sjá einnig: Ólafur Darri leikur á móti Jennifer Aniston og Adam Sandler í nýrri Netflix-mynd
Jóhannes mun fara með hlutverk Nick Barris í myndinni en hann er sagður vera annað illmenni myndarinnar en leikarinn Toby Kebbell mun einnig leika illmenni í myndinni. Dave Wilson leikstýrir myndinni en þetta er fyrsta kvikmyndin sem hann leikstýrir í fullri lengd.
Jóhannes Haukur hefur verið að gera það gott í Hollywood en á næsta ári mun hann sjást í kvikmyndinni The Good Liar þar sem Ian McKellen og Helen Mirren eru í aðalhlutverkum. Seinna á þessu ári má svo sjá hann í myndinni The Sisters Brothers þar sem leikarar á borð við Jake Gyllenhaal, John C. Reilly og Joaquin Phoenix eru í aðalhlutverkum.