Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson hefur fengið hlutverk í nýjustu mynd Alberts Hughes, The Solutrean. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hughes leikstýrði meðal annars kvikmyndunum The Book of Eli, From Hell, Dead Presidents og Menace II Society ásamt bróður sínum, Allan. Í Fréttablaðinu kemur fram að mikil leynd hvíli yfir myndinni en einn af leikurunum myndarinnar er Kodi Smit-McPhee, sem lék í meðal annars í Rise of the Planet of the Apes, The Road og nýjustu X-Men myndinni.
Jóhannes segir í samtali við Fréttablaðið að hann verði við tökur á myndinni í Kanada næstu mánuði.
Varðandi hlutverkið og stærðina á því þá má ég ekkert segja, því miður. Maður verður að leyfa framleiðendunum að stjórna þessu. Ég er búinn að skrifa undir samninga sem banna mér að tjá mig nánar um þetta að svo stöddu.
Jóhannes Haukur hefur gert það gott undanfarið og landað hlutverkum í þáttunum Game of Thrones, A.D. Kingdom and Empire og kvikmyndinni The Coldest City.
„Það er frábært að geta ferðast um heiminn og unnið með nýju og ólíku fólki. Fólki sem maður myndi annars aldrei hitta á lífsleiðinni,“ segir hann í Fréttablaðinu.
„Það hefur gengið ágætlega hjá mér núna í tæp tvö ár. […] Við sjáum svo bara til hvað þetta endist og hvert þetta fer. En vissulega mjög ánægjulegt og spennandi allt saman.“