„Þetta er mjög fínt, ég kvarta ekkert hér,“ sagði Jökull Júlíusson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Kaleo, um tónleikarútuna sína í þættinum Ísþjóðin á RÚV í gærkvöldi. Kaleo hefur verið á stöðugu tónleikaferðalagi undanfarin misseri en Jökull ferðast ekki í sömu rútu og félagar sínir í hljómsveitinni.
Kaleo hefur notið mikillar velgengni undanfarið. Hljómsveitin var í þriðja sæti á alternative lista Billboard fyrir árið 2016 með lag sitt Way Down We Go. Þetta er besti árangur nýrrar rokksveitar síðan Götye gaf út lagið Somebody that I used to know árið 2012.
Lögin á listanum eru þau mest spiluðu á útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum sem sérhæfa sig í rokktónlist en Billboard útnefndi Kaleo einnig sem bestu nýju rokkhljómsveit ársins.
Jökull sagði í viðtali við Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur í Ísþjóðinni í gær að hann ferðist um í sérrútu ásamt aðstoðarmanni sínum, umsjónarmanni tónleikaferðalagsins og sviðmanni. „Svo eru hinir strákarnir og hitt crewið í annarri rútu,“ sagði hann og bætti við að með hljómsveitinni telji hópurinn um tólf manns.
Það fer mjög vel um mig. Ég kann bara vel við mig eins og er. Tónleikastaðirnir eru mismunandi þegar maður er að spila og mér finnst voða kósí fyrir gigg að vera að slaka á hér
Jökull sýndi Ragnhildi Steinunni rútuna og komst hún meðal annars að því að hann sefur í sérstakri svítu aftast í rútinni en aðrir starfsmenn sofa í kojum framar í rútinni. Í svítunni er Jökull með stórt rúm, sturtu og klósett og hann er ánægður með aðstöðuna.
Rætt var við bílstjórann Arthur Roundy í þættinum og hafði hann ekkert nema góða hluti að segja um Jökul, eða JJ eins og hann kallaði hann. „Hann er frábær. Besti listamaður sem ég hef unnið með. Ég hef unnið með Justin Bieber, The Weekend, Guns n’ Roses, Keith Urban, Brad Paisly, nefndu það bara. Ég hef verið lengi í bransanum,“ sagði hann.
Arthur sagði Jökul vera hljóðlátan og hrósaði honum sérstaklega fyrir að taka til eftir sig. „Hann er eini listamaðurinn sem ég hef unnið með sem fer í sturtu eftir tónleika og beint í rúmið. Það er ekkert óhóf. Hann drekkur ekki eða djammar. Hann er mjög góður listamaður.“
Platan A/B með Kaleo kom út í júní í fyrra og fór toppinn á listum iTunes víða um heim og ofarlega á lista í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Platan er gefin út af útgáfurisanum Atlantic en Sena sér um útgáfu plötunar hér heima. Platan fór á toppinn á lista iTunes í Kanada, Grikklandi, Írlandi, Lúxemborg, Nýja-Sjálandi, Ísrael, Líbanon og Sviss. Í annað sæti í Suður-Afríku og Rússlandi og í þriðja sæti í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þá komst platan á topp tíu í Ástralíu, Singapore, Indlandi, Tyrklandi og inn á lista í Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og í Þýskalandi.