Framkvæmdastjóri IKEA hefur ekki gefið jólageitina upp á bátinn, þrátt fyrir að geitin hafi enn einu sinni orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum fyrir síðustu jól. Hún verður endurreist næstu jól og verður hækkuð um að minnsta kosti einn metra. Þetta kemur fram á DV.
Tveir skemmdarvargar kveiktu næstum því í sjálfum sér í nóvember í fyrra þegar þeir reyndu að kveikja í geitinni. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði. Nokkrum dögum seinna var gerð önnur tilraun til að kveikja í henni og brann hún þá til kaldra kola. Lögregla handtók þrjá vegna málsins og vistaði tvo í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Sjá einnig: Myndband: Skemmdarvargar reyndu að kveikja í IKEA-geitinni en kveiktum næstum því í sjálfum sér
„Mér finnst þessi geit óskaplega falleg. Í byrjun var hún stæling á þeirri sænsku og við vorum með ljóskastara á henni. Síðan fékk ég hugljómun: hvað gerist ef maður vefur seríu utan um hana? Hún verður svo miklu fallegri við það. Mér finnst þessi geit vera flottasta jólaskraut á landinu. Hún verður endurreist og fær vonandi að vera í friði,“ segir Þórarinn Ævarsson í samtali við DV.