Jón Gnarr segir að Skaupið verði ekki pólitískt í ár og Fóstbræðraandinn muni svífa yfir vötnunum. Hann hefur lengi langað að koma að gerð Skaupsins en segir það ekki hafa verið tímabært fyrr en núna.
Greint var frá því í þættinum Sjónvarp í 50 ár: Skemmtiefni á RÚV á laugardagskvöld að Jón myndi leikstýra áramótaskaupinu í ár. Með honum verða Sigurjón Kjartansson, Þorsteinn Guðmundsson, Helga Braga Jónsdóttir og Katla Margrét Þorgeirsdóttir.
Sjá einnig: Jón Gnarr leikstýrir Skaupinu í ár.
„Mér líst rosalega vel á þetta. Þetta er mjög spennandi verkefni og skemmtilegur hópur. Þetta er fólk sem ég hef unnið með áður, yfirleitt þegar við höfum unnið saman hefur það verið í alla staði fyndið,“ segir Jón í samtali við Nútímann.
Hann segir að það hafi lengi verið áhugi fyrir því að finna vettvang fyrir Fóstbræður til að vinna saman á ný. „Við vissum alveg að það væri stemning fyrir því. Okkur hefur langað til að búa til eitthvað þar sem við getum komið öll saman og unnið að einhverju verkefni,“ segir Jón.
Aðspurður segir Jón að skaupið verði ekki pólítískt í ár. „Mér finnst Skaupið fyrst og fremst þurfa að vera fyndið, það má ekki vera pólitískt á kostnað gríns, segir hann.
Auðvitað er markmiðið að gera gys að atburðum sem hafa gerst á árinu eða stemningu sem er í samfélaginu.
Áhorfendur munu að öllum líkindum finna Fóstbræðraandann svífa yfir vötnunum en vinnuheiti verkefnisins er Fóstbræður the Skaup. „Það verður Fóstbræðrafílingur,“ segir Jón.
Hann tekur undir með blaðamanni Nútímans að árið hafi verið viðburðaríkt og bætir við að einnig sé margt að gerast núna. Jóni finnst það þó ekki yfirþyrmandi og lítur frekar á það sem lúxusvandamál.
Jón segist lengi hafa viljað koma að gerð Skaupsins en það hafi ekki verið tímabært fyrr en núna. „Ég hef verið að leikstýra, var að leikstýra Borgarstjóraþáttunum. Leikstjórn er nokkuð sem mig langar að gera meira af. Mér finnst gaman að leikstýra,“ segir hann að lokum.