Jón Gnarr birtir neyðarkall á Facebook-síðu Sigurjóns Kjartanssonar, samstarfsfélaga síns í Tvíhöfða á Rás 2 í dag. Neyðin fellst í því að erfitt getur reynst að ná í Sigurjón þrátt fyrir að hann sé með tvo farsíma. Jón segist hafa hringja sjö sinnum í Sigurjón í dag án þess að vera svarað.
Sjá einnig: Tvíhöfði með ógeðslega fyndið grín um prakkara á Þjóðhátíð: „Hvað er að því að kítla hressar ungar konur?“
Jón segist tala fyrir hönd vina og vandamanna Sigurjóns sem þurfa að hafa við hann samskipti í síma. „Það skilur enginn þetta tveggja síma kerfi sem þú ert með og hvenær maður á að hringja í annan og hvenær í hinn,“ segir Jón.
Venjulegir símar eru ekki meiri snjalltæki en svo að þeir gera ekki greinarmun á þessum númerum og maður sér bara að maður hafi hringt í Sigurjón mobile en ekki hvort númerið maður var að hringja í.
Jón segist vera búinn að hringja sjö sinnum í Sigurjón í dag og óttast að virka eins og óður maður, þrátt fyrir að erindið hafi ekki verið neitt sérstakt. „Ég ætlaði bara að heyra í þér,“ segir hann og fer svo nánar í saumana á tilraunum sínum til að ná í Sigurjón.
„Ég hringdi og þú svaraðir ekki. Þá mundi ég að þú ert með tvo síma en þar sem ég gat ekki séð hvort númerið ég hafði áður hringt í þá hringdi ég í þau bæði,“ segir Jón en þá voru tilraunirnar orðnar þjár.
„Þegar þú hringdir ekki til baka hringdi ég til öryggis í bæði númerin og þar sem ég hélt að ég hefði kannski óvart hringt tvisvar í annað númerið, hringdi ég til öryggis tvisvar í hitt til að gæta samræmis.“
Tilraunir Jóns voru því alls sjö en engin bar árangur og hann á enn eftir að ná í Sigurjón í síma. Jón leggur til að Sigurjón leysi þetta vandamál með einföldum símsvarakveðjum þar sem Sigurjón tiltekur hvert maður er að hringja, hvenær hann noti þennan síma og hvenær maður ætti frekar að hringja í hinn símann.
„Svo getur þú farið yfir tveggja síma kerfið í stuttu og skýru máli, vinum, fjölskyldu og samstarfsfélögum til hjálpar. Takk fyrir,“ segir Jón að lokum.
Sigurjón var fljótur að bregðast við neyðarkalli Jóns og svarar honum að bragði: „Ég þakka fyrir þetta. Tek reyndar fram að samkvæmt mínum rannsóknum eru þetta ekki nema þrjár tilraunir sem þú gerðir til að ná í mig — eina í annan símann og tvær í hinn. Þessu hefur nú verið kippt í liðinn.“