Leikarinn, uppistandarinn og lífskúnstnerinn Jón Gnarr hefur skráð sig í Viðreisn og ætlar að taka þátt í haustþingi stjórnmálaflokksins sem fer fram í Hlégarði í Mosfellsbæ um helgina. Þá er Jón sagður stefna á Alþingi og að hann komi til með að vera á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem flokkurinn fékk einn þingmann kjörinn í síðustu kosningum.
Það er Vísir sem greinir frá þessu og vitnar til heimilda miðilsins.
Það má því draga þá ályktun að Jón hafi skráð sig úr Samfylkingunni en hann skráði sig í flokkinn árið 2017 og lét þá hafa eftir sér að honum. hafi litist „bara rosalega vel á Samfylkinguna.“
Jón Gnarr hefur ekki áður sóst eftir því að sitja á hinu háa Alþingi en hann varð borgarstjóri Reykjavíkur hins vegar frá 2010 til 2014.
Þá hafði flokkur hans, Besti flokkurinn, sem var stofnaður sama ár og kosningarnar fóru fram, unnið frækinn sigur í borgarstjórnarkosningunum.