Teiknuð mynd af liðsmönnum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu vakti athygli á dögunum. Strákarnir okkar voru teiknaðir í víkingalíki. Það voru ekki allir sáttir með það hvernig landsliðið var teiknað en mikil umræða varð á samfélagsmiðlum um myndina þar sem sumir töldu hana ofbeldisfulla og sumir vildu tengja hana við áróður nasista.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson var einn af þeim sem gagnrýndi myndina en á Facebook síðu sinni skrifaði hann: „Ísland kemur á HM sem sá allra, allra minnsti bróðir sem þar hefur komist í dyrastafinn og svona „víkingagorgeir“ og svona ofbeldisfantasíur eru alveg langt fyrir neðan allar hellur.”
Listamaðurinn Jón Páll Halldórsson teiknaði myndina en hann segir í samtali við Nútímann að það hafi aldrei verið ætlunin að landsliðsmennirnir ættu að virðast árásagjarnir.
„Við enduðum með þessa pælingu að hafa þá sem víkinga en þeir áttu ekkert að vera árásagjarnir eða ofbeldisfullir. Þetta átti frekar að vera þannig að það væri eins og þeir væru búnir að leggja mikið á sig,“ segir Jón Páll.
Þetta átti ekki að tengjast ofbeldi. Þeir eru bara tilbúnir í slaginn. Við vissum alveg að myndin gæti orðið oftúlkuð eins og raunin var en þess vegna vorum við vísvitandi með engin vopn á henni eða neina aðra vísun í ofbeldi. Hún átti frekar að tákna leikinn eins og hann er á vellinum, leikmenn eru í vörn og sókn og svona.
Jón Páll segir að umræðan um myndina hafi gengið of langt og að á tímum hafi verið eins og að fólk væri vísvitandi að reyna að finna eitthvað til þess að væla yfir. Sumir vildu meina það að á myndinni væri Moskva að brenna í bakgrunni en Jón Páll segir að það sé auðvelt að sjá að svo sé ekki.
„Ef þú horfir á myndina í meira en þrjár sekúndur sérðu að Moskva er ekki sömu megin og eldurinn. Við vildum nota íslensku elementin og hentum inn stuðlaberginu og snæviþöktum eldfjöllum. Svo er Moskva þarna því að það er áfangastaðurinn.”
Hann segist hafa gert augljós skil á milli eldsins og Moskvu til þess að þessi misskilningur kæmi ekki upp.
„Fyrir mér er það frekar taktlaust að lesa í þetta eins og að Moskva sé að brenna. Þessi mynd átti ekki að vera móðgandi á neinn hátt, þetta átti ekki að vera neitt ögrandi og því kom það mér á óvart hvað fólk yfirtúlkaði þetta mikið.”
„Suma vantar hluti til að röfla yfir en mér er sama þótt fólk ákveði að rífast yfir þessu. Þetta er eitthvað umræðuefni sem er að hrjá Íslendinga og snertir kannski ekki endilega myndina sjálfa. Sumir vilja tengja okkar arfleifð við víkinga og aðrir eru viðkvæmir fyrir því.”
Sjálfur segist Jón Páll teikna mikið af myndum í þessum dúr og að víkingaheimurinn heilli hann. Það hafi því legið beinast við að teikna myndina í þessum stíl þegar KSÍ hafi haft samband.
„Ég skil alveg hvaðan sumt fólk er að koma en það er hægt að túlka þetta sem plötuumslag á rokkplötu eða kvikmyndaplakat frekar en að líkja þessu við áróður nasista. Meiningin með þessu var auðvitað alls ekki sú að líkja þeim við nasistaáróður. Við notuðum íslenskar rúnir og þar er s-ið svona.”
„Til dæmis er myndin af Gylfa með hnefann á lofti tekin beint úr fjölmiðlum. Við erum ekki að sækja í neinar táknmyndir heldur eru strákarnir bara teiknaðir eins og þeir eru. Það þarf ekkert að oftúlka það neitt.”
Að lokum segist Jón Páll spenntur fyrir því að fá að spreyta sig á því að teikna kvennalandslið Íslands sem mun í haust leika úrslitaleik við Þýskaland um sæti á HM.
Hér að neðan má sjá umtalaða mynd: