„Mörgum er tíðrætt þessa dagana um lág laun á Íslandi og veika stöðu velferðarkerfisins. Er nema von að staðan sé eins og hún er þegar þjóðin lætur það yfir sig ganga ár eftir ár að stjórnvöld úthluti verðmætustu auðlindum þjóðarinnar með u.þ.b. 80% afslætti? Nú vill ríkisstjórnin taka stórt skref í þá átt að festa enn frekar í sessi þetta ófremdarástand. Er ekki tími til kominn að landsmenn segi hingað og ekki lengra?“
Þetta segir Jón Steinsson hagfræðingur í grein í Fréttablaðinu í dag.
Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp sem kveður á um að aflaheimildum í makríl verði úthlutað til sex ára. Í núverandi lögum um stjórn fiskveiða er aflahlutdeildum úthlutað ótímabundið og því er oft talað um varanlega úthlutun aflaheimilda, segir Jón í greininni.
Það kann því að hljóma eins og makrílfrumvarp ráðherra veiti útgerðinni minni rétt til makrílveiða en lög um stjórn fiskveiða gera um aðrar tegundir. Þetta er alvarlegur misskilningur.
Hann segir að frumvarp ráðherra feli í rauninni í sér grundvallarbreytingu í þá átt að styrkja lagalega stöðu útgerðarinnar og að ekkert ákvæði sé um þjóðareign kvótans í frumvarpinu.
„Né heldur um það að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þvert á móti er kveðið á um að sex ára úthlutun veiðiheimilda í makríl framlengist sjálfkrafa um eitt ár á hverju ári og að úthlutuninni sé ekki hægt að breyta nema með sex ára fyrirvara. Þetta er grundvallarbreyting.
Ég vil minna lesendur á að sex ár eru lengri tími en heilt kjörtímabil Alþingis. Þetta frumvarp þýðir því að næsta ríkistjórn mun ekki geta breytt úthlutun aflaheimilda í makríl og komið þeim breytingum í framkvæmd jafnvel þótt hún sitji heilt kjörtímabil. Til þess að gera slíkt mun þurfa ríkisstjórn sem vinnur tvennar kosningar í röð. Með öðrum orðum mun þjóðin ekki geta komið fram vilja sínum um eðlilegt leigugjald fyrir úthlutun makrílkvóta jafnvel þótt hún kjósi til þess meirihluta í þingkosningum.“
Jón segir þjóðina hlunnfarna um tugi milljarða árlega og að með frumvarpinu sé stigið risastórt skref í þá átt að festa varanlega í sessi það fyrirkomulag að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameign þjóðarinnar.
Smelltu hér til að lesa grein Jóns.