Michael Jordan hefur alveg efni á að rífa kjaft. Það er einmitt það sem hann er búinn að gera síðustu ár og sjálfur Barack Obama Bandaríkjaforseti er nýjasta skotmarkið.
Jordan sagði í viðtali við Ahmad Rashad, sem flestir NBA áhugamenn kannast við, að Obama væri hægur og hræðilegur golfari: „Ég er ekki að segja að hann sé slæmur stjórnmálamaður en hann er hræðilegur golfari.“
Obama hefur nú svarað Jordan. Það gerði hann í viðtali á mánudag í útvarpsþætti í Wisconsin. Obama sagði að vissulega væri Jordan betri golfari en hann en lét ekki þar við sitja og skaut aðeins á þennan besta körfuboltamann fyrr og síðar:
Michael var ekki alveg nógu vel upplýstur í þessu máli. Ég held að hann hafi mögulega bara verið að reyna að auka áhorfið á þáttinn hans Ahmad. En það leikur enginn vafi á því að Michael er betri golfari en ég. Að sjálfsögðu. Ef ég hefði hins vegar spilað tvisvar á dag síðustu 15 ár þá væri það kannski ekki raunin. Hann ætti kannski að hugsa að eins meira um Bobcats — eða Hornets.
Þar vísaði hann í körfuboltalið Jordans en það má segja að hann hafi ekki verið beint farsælasti eigandi heims.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.