Auglýsing

Justin og Jessica fengu sér aspasstykki hjá Bakarameistaranum: „Þetta er ekkert djók, Timberlake er að koma!“

Hjónin Justin Timberlake og Jessica Biel fengu sér að borða hjá Bakarameistaranum í Suðurveri í gær. Þau fengu sér aspasstykki, beikonbræðing og moonsnúð og drukku epla Trópí, vatn og espressó með.

Þetta segir Magnús Ingi Kjartansson, starfsmaður Bakarameistarans, í samtali við Nútímann en hann afgreiddi hjónin. Líkt og kom fram í gær komu þau til landsins á föstudaginn og ætla að dvelja á Suðurlandi. Þá kemur fram að þau ætli að vera hér á landi í sex daga og að þau ætli að skoða landið.

Sjá einnig: Justin Timberlake og Jessica Biel stödd á Íslandi

Fimm mínútum áður en Justin og Jessica gengu inn í bakaríið kom Íslendingur inn og sagði starfsfólkinu að þetta væri ekkert djók, Timberlake ætlaði að koma og borða á staðnum. Magnús Ingi segist telja að þetta hafi verið starfsmaður þeirra. Hann tók síðan á móti hjónunum og afgreiddi þau.

„Ég bauð bara góðan daginn og ætlaði að afgreiða þau. Ég mælti með allskonar hlutum í borðinu,“ segir Magnús Ingi. Justin valdi beikonbræðing, tvo epla Trópí og Jessica aspasstykki og vatnsglas. Bæði fengu þau sér kaffi og bauð Magnús Ingi þeim upp á moonsnúð í eftirmat í boði hússins.

„Þeim fannst þetta rosalega gott og hrósuðu mér mikið,“ segir Magnús Ingi. Hann segir að aðrir gestir Bakarameistarans hafi ekki veitt hjónunum athygli en þau sátu úti í horni og því mögulegt að enginn hafi tekið eftir því hver voru þar á ferð. Hjónin þökkuðu kærlega fyrir sig áður en þau yfirgáfu staðinn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing