Úrslitin í bardaga Gunnars Nelson og Santiago Ponzinibbio um síðustu helgi verið kærð. Þetta kemur fram á Vísi. Santiago rotaði Gunnar í fyrstu lotu eftir að hann hafði potað ítrekað í augu hans.
Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, segir í samtali við Vísi að kæran hafi verið send til UFC bardagasambandsins og að þeir vilji að úrslitum bardagans verði breytt. „Sá sem vann braut ítrekað á andstæðingi sínum,“ segir Haraldur í samtali við Vísi.
Við viljum að niðurstöðunni verði breytt í „no contest“ eða engin úrslit. Úrslitin verði ógild. Við viljum að UFC rannsaki þetta mál ofan í kjölinn.
Hann segist gera sér grein fyrir því að líkurnar á þvú að úrslitunum verði breytt séu litlar sem engar. „Það er ekki hefð fyrir því en við teljum að brotin þarna séu svo gróf og hættuleg að UFC eigi að svara þessu af fullri hörku. Senda um leið skilaboð að svona hlutir verði ekki liðnir innan sambandsins,“ segir Haraldur á Vísi.