Anna Katrín Snorradóttir lagði á miðvikudag fram kæru hjá lögreglu gegn Robert Downey, áður Róberti Árna Hreiðarssyni, fyrir kynferðisbrot á árunum 2001 til 2004.
Hann var dæmdur í Hæstarétti árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum á árunum 2005 og 2006 og eru brotin sem Anna Katrín kærði sams konar og hann var dæmdur fyrir. Robert fékk uppreist æru í fyrra og endurheimti lögmannsréttindi sín í júní.
„Mig langaði alltaf að koma fram, mig langaði alltaf að skila skömminni en ég skammaðist mín ennþá of mikið og ég fékk mig ekki í það,“ sagði Anna Katrín um málið í samtali við RÚV.
Bergur Þór Ingólfsson, pabbi einnar þeirra sem Robert var dæmdur fyrir að brjóta gegn, segist í samtali við Vísi ekki vita um fleiri sem Robert hefur brotið á. Séu fleiri brotaþolar þá hvetur hann þau til að stíga fram og bíður fram aðstoð sína.
„Áður voru þær fjórar en eru nú orðnar sex sem vitað er um. Séu fleiri þarna úti sem hann hefur brotið á auglýsi ég eftir þeim og býð þeim að hafa samband við mig eða Nínu Rún dóttur mína og við förum varlega með allar upplýsingar sem okkur er trúað fyrir,“ segir Bergur Þór.