Auglýsing

Kaflaskil í lífi Hannesar Óla sem hefur leikið Sigmund Davíð í sjö ár: „Þetta er ljúfsárt“

Sigmundur Davíð hefur sagt af sér. Eða. Við höldum það allavega og þingflokkur Framsóknarflokksins er sammála. Það þýðir leikarinn Hannes Óli Ágústsson á mögulega aðeins eitt áramótaskaup eftir í hlutverki Sigmundar eftir að hafa túlkað hann árlega í næstum því sjö ár.

„Þetta er ljúfsárt, það er ekki hægt að segja annað. En er hann búinn að segja af sér?“ spurði Hannes Óli þegar Nútíminn heyrði í honum. Eins og flestir var hann ringlaður eftir atburðarás síðustu daga.

Hannes lék Sigmund Davíð í fyrsta skipti í áramótaskaupinu árið 2009, þegar Sigmundur var nýorðinn þingmaður. Hann hefur svo leikið hann í öllum skaupum síðan og við ýmis tilefni en nú virðist sjá fyrir endann á þessu tímabili í lífi Hannesar.

„Ég get vel ímyndað mér að eiga smá eftir, allavega eitt áramótaskaup. Það er óklílegt að honum bregði ekkert fyrir í því,“ segir Hannes léttur.

Svo vona ég að ég sé metinn af öðrum verðleikum en að leika forsætisráðherra. Ég hef haft ágætt að gera og óttast svo sem ekkert framtíðaratvinnuleysi.

Hannes segir að um ákveðin kaflaskil sé að ræða en að það sé bara ánægjulegt. „En hver veit nema að hann fari að gera eitthvað algjört rugl? Sigmundur er ólíkindatól,“ segir hann og bendir á að fyrstu þrjú skaupin hafi Sigmundur ekki verið orðinn forsætisráðherra, þannig að það sé aldrei vita hvort honum haldi áfram að bregða fyrir.

„Kannski fær maður að leika eitthvað annað í skaupinu? Verst að Dóri DNA er búinn að leika Sigurð Inga. Við skiptum á milli okkar feitukallahlutverkunum,“ segir Hannes en Dóri lék Sigurð Inga í Skaupinu árið 2014.

Hannes var upptekinn við æfingar á Góða dátanum Svejk þar sem hann fer með aðalhlutverkið. Verkið verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu 10. apríl. Hér má finna helstu upplýsingar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing