Lagið Way Down We Go með hljómsveitinni Kaleo er komið í efsta sæti bandaríska Billboard Alternative-listans þessa vikuna. Lögin á listanum eru þau mest spiluðu á útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum sem sérhæfa sig í rokktónlist.
Hljómsveitin Red Hot Chili Peppers var á toppi listans í síðustu viku með nýja lagið sitt, Dark Necessities, og situr nú í öðru sæti. Hljómsveitin Blink-182 er í þriðja með lagið Bored to Death en á listanum má einnig finna lög með hljómsveitum og listamönnum á borð við Beck, Weezer og Twenty One Pilots.
Sjá einnig: Fyrsta plata Kaleo fer af stað með hvelli, á topplista iTunes um allan heim
Platan A/B með Kaleo kom út í júní og fór toppinn á listum iTunes víða um heim og ofarlega á lista í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Platan er gefin út af útgáfurisanum Atlantic en Sena sér um útgáfu plötunar hér heima. Platan fór á toppinn á lista iTunes í Kanada, Grikklandi, Írlandi, Lúxemborg, Nýja-Sjálandi, Ísrael, Líbanon og Sviss. Í annað sæti í Suður-Afríku og Rússlandi og í þriðja sæti í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þá komst platan á topp tíu í Ástralíu, Singapore, Indlandi, Tyrklandi og inn á lista í Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og í Þýskalandi.