Lagið Way Down We Go með hljómsveitinni Kaleo hefur selst í meira en milljón eintökum í Bandaríkjunum. Kaleo fékk afhenta platínuplötu fyrir lagið á uppseldum tónleikum sínum í New York um helgina.
Sindri Ástmarsson, talsmaður Kaleo á Íslandi, segir í tilkynningu að árangurinn sé frábær. „Björk og Of Monsters and Men eru einu íslensku tónlistarmennirnir sem hafa áður afrekað þetta í Bandaríkjunum og fetar Kaleo nú í fótspor þeirra,“ segir hann.
Lögum Kaleo hefur verið streymt 321 milljón sinnum á Spotify og plötur hljómsveitarinnar hafa selst í 860 þúsund eintökum um allan heim. Þá hefur lögum Kaleo verið streymt 177 milljón sinnum á Youtube og 161 þúsund miðar hafa selst á tónleika hljómsveitarinnar á þessu ári.
Way Down We Go er einnig komið í platínusölu í Ástralíu, Írlandi, Frakklandi og Sviss og tvöfalda platínusölu í Rússlandi og Kanada. Á meðfylgjandi mynd má sjá Kaleo ásamt Gregg Nadel og Craig Kallman frá Atlantic Records, Bruce Kalmick, umboðsmaður Kaleo.