Eins og alþjóð veit hefur hljómsveitin Kaleo notið mikillar velgengni að undanförnu en sveitin hitaði upp fyrir bresku stórsveitina Rolling Stones á þrennum tónleikum í haust. Aðeins eru rúm fjögur ár síðan sveitin hitaði upp fyrir íslensku cover-hljómsveitina Stóns á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ.
Sjá einnig: Kaleo fær platínuplötu fyrir Way Down We Go, milljón eintök seld í Bandaríkjunum
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo sagði frá þessu í viðtali við fréttstofu Rúv í gærkvöldi. Hann sagði það hafa verið ógleymanlega upplifun að hita upp fyrir svo stóra hljómsveit.
„Við hituðum upp fyrir íslensku cover-hljómsveitina Stóns á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ fyrir fjórum eða fimm árum. Þannig að það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og gaman að hugsa til þess,“ sagði Jökull í fréttum Rúv.
Fram kom í umfjöllun Rúv að meðlimir Rolling Stones hafi sjálfir óskað eftir því að Kaleo hitaði upp fyrir þá. „Mick vildi fá okkur til þess að spila með þeim á þessum túr. Það hefði kannski verið skemmtilegt að taka meiri þátt í öllum túrnum en við erum í miðju kafi með okkar túr sjálfir,“ sagði Jökull.