Platan A/B með hljómsveitinni Kaleo kom út á dögunum og fór beint í 15. sæti bandaríska Billboard-listans. Drake er á toppi listans með plötuna Views og Beyoncé er í fjórða sæti með Lemonade.
Sjá einnig: Kaleo vottaði fórnarlömbum skotárásarinnar í Orlando virðingu sína í spjallþætti á NBC
Platan er gefin út af útgáfurisanum Atlantic en Sena sér um útgáfu plötunar hér heima. Platan fór á toppinn á lista iTunes í Kanada, Grikklandi, Írlandi, Lúxemborg, Nýja-Sjálandi, Ísrael, Líbanon og Sviss. Í annað sæti í Suður-Afríku og Rússlandi og í þriðja sæti í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þá komst platan á topp tíu í Ástralíu, Singapore, Indlandi, Tyrklandi og inn á lista í Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og í Þýskalandi.
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, segir í samtali við RÚV að fréttirnar af velgengni plötunnar séu óvæntar. „Ég er nú bara í sveitinni í rólegheitunum og vissi varla af þessu,“ segir hann á vef RÚV.
Það hefur gengið vonum framar hjá okkur úti; við fáum þvílík viðbrögð og þetta er líklegast í samræmi við það. Það er alltaf gaman að heyra svona.
Kaleo hefur verið með höfuðstöðvar í Texas undanfarið og spilað á tónleikum víða um heim. Hljómsveitin kemur fram í Gamla bíói í byrjun júlí og heldur svo aftur vestur um haf.