Hljómsveitin Kaleo kemur fram á tónlistarhátíðinni Coachella í Kaliforníu í apríl. Þetta kemur fram á Vísi. Hátíðin er ein sú stærsta og þekktasta í Bandaríkjunum en árið 2015 seldust hvorki fleiri né færri en 198 þúsund miðar.
Á vef hátíðarinnar kemur fram að Kaleo komi fram laugardagana 15. og 22. apríl en hátíðin fer fram tvær helgar, 14. til 16. apríl annars vegar og 21. til 23. apríl hins vegar. Beyoncé kemur fram á sömu dögum og Kaleo en þar verða líka Bon Iver, Future, ScHoolboy Q, Gucci Mane og fleiri íþekktari nöfn.
Á meðal annarra risanafna sem koma fram á hátíðinni eru Radiohead, Kendrick Lamar, The XX, Father John Misty, Lorde, New Order, Justice og Future Islands.
Kaleo átti frábært ár í fyrra. Hljómsveitin var í þriðja sæti á alternative lista Billboard fyrir árið 2016 með lag sitt Way Down We Go. Þetta er besti árangur nýrrar rokksveitar síðan Götye gaf út lagið Somebody that I used to know árið 2012.
Lögin á listanum eru þau mest spiluðu á útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum sem sérhæfa sig í rokktónlist en Billboard útnefndi Kaleo einnig sem bestu nýju rokkhljómsveit ársins.
Way Down We Go fór í efsta sæti bandaríska Billboard Alternative-listans í fyrra. Hljómsveitin sendi einnig frá sér plötuna A/B með Kaleo í júní og fór hún á toppinn á listum iTunes víða um heim og ofarlega á lista í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Platan var gefin út af útgáfurisanum Atlantic en Sena sér um útgáfu plötunnar hér heima. Platan fór á toppinn á lista iTunes í Kanada, Grikklandi, Írlandi, Lúxemborg, Nýja-Sjálandi, Ísrael, Líbanon og Sviss. Í annað sæti í Suður-Afríku og Rússlandi og í þriðja sæti í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þá komst platan á topp tíu í Ástralíu, Singapore, Indlandi, Tyrklandi og inn á lista í Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og í Þýskalandi.