Hljómsveitin Kaleo var í dag tilnefnd til Grammy-verðlauna í flokki rokktónlistar. Kaleo var tilnefnd fyrir lagið No Good en í sama flokki eru tilnefnd lögin You Want It Darker með Leonard Cohen, The Promies með Chris Cornell, Run með Foo Fighters og Go to War með Nothing More. Jóhann Jóhannsson var einnig tilnefndur fyrir tónlistina í myndinni Arrival.
Sjá einnig: Þúsundir aðdáenda slefa yfir Jökli í Kaleo á Instagram: „Eiginmaður framtíðarinnar“
Þess má geta að Leonard Cohen lést í fyrra og Chris Cornell lést fyrr á þessu ári. Rapparinn Jay-Z fékk flestar tilnefningar, átta talsins og rapparinn Kendrick Lamar fékk sjö. Bruno Mars fékk sex tilnefningar og SZA fimm. Verðlaunin verða afhent 28. janúar á næsta ári.
Velgengni Kaleo undanfarið hefur verið ótrúleg. Lagið Way Down We Go hefur selst í meira en milljón eintökum í Bandaríkjunum og fékk hljómsveitin afhenta platínuplötu fyrir lagið á uppseldum tónleikum sínum í New York á dögunum.
Lögum Kaleo hefur verið streymt 321 milljón sinnum á Spotify og plötur hljómsveitarinnar hafa selst í 860 þúsund eintökum um allan heim. Þá hefur lögum Kaleo verið streymt 177 milljón sinnum á Youtube og 161 þúsund miðar hafa selst á tónleika hljómsveitarinnar á þessu ári.
Way Down We Go er einnig komið í platínusölu í Ástralíu, Írlandi, Frakklandi og Sviss og tvöfalda platínusölu í Rússlandi og Kanada.