Kampavínsklúbburinn Crystal var opnaður á Tryggvagötu í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Í fréttinni kemur fram að samkvæmt heimildum Fréttablaðsins séu klefar sem hægt sé að draga fyrir inni á staðnum.
Haraldur Jóhann Þórðarson, eigandi Crystal sem áður var starfræktur í Ármúla, segir í samtali við Fréttablaðið að ekkert óeðlilegt sé við starfsemina og að hún sé öll innan lagalegra marka.
Þetta er bara klassískur kampavínsklúbbur. Þú getur keypt flott vín og fengið að ræða við stúlkurnar sem vinna á staðnum. […] Þarna er bara sötrað kampavín og dansa bæði gestir og starfsmenn eins og gengur og gerist á skemmtistöðum.
Snorri Birgisson lögreglufulltrúi segir í samtali við Fréttablaðið að um leið og það eru komnar súlur og konur að dansa þá þurfi að skoða hvort eitthvað ólöglegt sé í gangi. „Við skoðum hvort þarna séu einstaklingar að veita meiri þjónustu en að drekka vín með viðskiptavinum,“ segir hann.