Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ætlar ekki að bjóða sig fram sem forseti á næsta ári. Orðrómur um að hann ætli að bjóða sig fram hefur verið á kreiki undanfarið en hann tók af öll tvímæli í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Sigmar Guðmundsson, annar stjórnenda þáttarins spurði Kára hreint út hvort hann stefni á Bessastaði.
„Ó nei og þeir sem eru að nefna mitt nafn í því sambandi bara þekkja mig alls ekki,“ sagði Kári, ómyrkur í máli.
Menn kjósa ekki rudda eins og mig sem forseta og ruddi eins og ég hefur engan áhuga á að verða forseti. Því þið sjáið bara hvernig menn verða, sem verða forsetar á Íslandi. Ekki viltu verða eins og Ólafur Ragnar Grímsson og Vigdís Finnbogadóttir.
Beðinn um að útskýra þessi ummæli nánar sagði Kári: „Ég ætla ekkert að fara út í smáatriði hér, vil ekki tala illa um þjóðhöfðingjana.“
Þar höfum við það.