Auglýsing

Kári Stefáns hótar að safna 100 þúsund undirskriftum gegn ríkisstjórnarflokkunum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir í grein í Fréttablaðinu að heilbrigðiskerfið sé í engu minna rusli en áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Hann spyr hvernig standi á því að þjóðin sætti sig að láta hlúa svona illa að sjúkum og meiddum samborgurum sínum.

Ef fjárlaganefnd breytir ekki fjárlagafrumvarpinu á þann veg að meira fari til Landspítalans segist Kári ætla ásamt nokkrum félögum að safna 100.000 undirskriftum undir plagg sem hvetur landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn „vegna þess kulda og afskiptaleysis sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi.“

Söfnunin verður létt verk og löðurmannlegt. Þjóðinni ofbýður.

Kári beinir orðum sínum til Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, í pistlinum. Hún sakaði Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, um að beita sig andlegt ofbeldi á dögunum þegar hann útskýrði fyrir henni fjárþörf spítalans.

„Þar gætti svolítils misskilnings af hennar hálfu því þótt það hafi brunnið á hörundi nefndarmanna að heyra lýst þeirri þörf sjúklinga sem þeir ætluðu ekki að mæta þá er ekki um ofbeldi að ræða af Páls hálfu heldur lýsingu á raunveruleika,“ segir Kári.

„Það má hins vegar deila um það hvað væri viðeigandi nafn á þann gjörning nefndarinnar sem fólst í því að daufheyrast við baráttu Páls fyrir því að spítalinn fengi í það minnsta að halda í horfinu.“

Kári segir að Vigdís hafi veist að Páli þar sem hún kallaði baráttu hans fyrir hagsmunum þeirra sem minnst mega sín í íslensku samfélagi andlegt ofbeldi.

„Nefndin virðist gleyma því að Páll er ekki að tala um göt í gegnum fjöll eða sendiráð í Tókíó heldur sjúkdóma fólksins í landinu, sársauka, kvíða, angist og líf og dauða og síðan sjúkdóma, sársauka, kvíða, angist og líf og dauða foreldra og barna fólksins. Og nefndin daufheyrist við því af botnlausum hroka og grimmd.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing