Karl Erlingsson, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Gróttu í handbolta, fær ekki að taka þátt í leikjum á vegum Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) í þrjá mánuði og þarf að greiða 50 þúsund krónur í sekt. Aganefnd HSÍ komst að þessari niðurstöðu í gær en mbl.is greindi frá málinu.
„Dómgæslan í gær minnti helst á lélegan brandara,“ skrifaði hann á Facebook eftir tap Gróttu fyrir Haukum í Olís-deild kvenna á laugardag. „Gríðarleg framför hjá HSÍ eða hitt þó heldur, dómararuglið heldur áfram. Þvílíkt rugl. Eigum við ekkert betra skilið,“ spurði hann.
Sagði hann dómara leiksins vera hálf vangefna og fábjána. „Látum það vera að þessir fábjánar hafa aldrei spilað handbolta sjálfir. En óþarfi að setja hálf vangefið lið í búning og láta þá dæma,“ skrifaði hann einnig.
Karl lét ekki staðar numið þegar hann hafði gagnrýnt dómara leiksins. „Skrípaleikur í boði Kristjáns Halldórssonar. Hvað á þetta fífl að fá að ganga langt í að eyðileggja íslenskan handbolta,“ skrifaði hann en Kristján var eftirlitsmaður HSÍ á leiknum.
Grótta sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að Karl og stjórn félagsins hefðu komist að þeirri niðurstöðu að hann láti þegar af störfum fyrir félagið. Þá hefur Karl beðist afsökunar á ummælum sínum.
Í úrskurði aganefndarinnar segir að atvik málsins virðist benda til þess að ummælin hafi verið skrifuð utan leikstaðar og forsvarsmenn Gróttu átt erfitt með að koma í veg fyrir þau. Grótta er áminnt vegna framkomu starfsmanns síns.