Karlmaður sem áreitti konur fyrir utan skemmtistað í miðbænum var handtekinn um hálf þrjú í nótt. Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan hafði nóg að gera í nótt og talsvert var um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis. Fjórir karlmenn voru handteknir um klukkan tvö grunaðir um tilraun til þess að brjótast inn í fyrirtæki í Kópavogi.
Karlmaður í annarlegu ástandi var vistaður í fangaklefa eftir að hann veittist að fólki og er hann grunaður um að hafa jafnvel fleiri afbrot á samviskunni. Þá fundu lögreglufulltrúar kannabisræktun í heimahúsi í miðbænum en einn aðili var handtekinn vegna málsins.